Maur.is vill byrja á því að taka það skýrt fram að allar verktakagreiðslur eru tekjuskattsskyldar!

Algengur misskilningur er að það þurfi að vera mikið mál að skila inn gögnum og upplýsingum til skattayfirvalda. Hér fyrir neðan má fræðast um hin mismunandi þrep þegar það kemur að tekjuskattsskyldu verktaka en mun ítarlegri upplýsingar er hægt að nálgast á www.rsk.is og við mælum eindregið með því að fólk kynni sér reglur og lög áður en tekið er við greiðslum fyrir verktakavinnu.

Eins og fyrr segir þá eru allar verktakagreiðslur skattskyldar. Það er þó misjafnt hversu oft og hvaða gögnum verktaki þarf að skila inn til RSK en það fer aðallega eftir árlegum verktakatekjum.

0-600.000 kr: Ef verktaki er með undir 600 þ.kr. í verktakagreiðslur á ári þá þarf einungis að skila inn upplýsingum þegar árlegu skattframtali er skilað. Tekjuskattur og tryggingagjald er þá greitt við álagningu. Ekki þarf að hafa áhyggjur af virðisaukaskatti. Ef verkkaupi óskar eftir reikningi frá verktaka er ekkert mál að setja upp reikning í t.d. excel skjali og setja reikning upp eins og á þessari mynd:

https://www.rsk.is/media/baeklingar/rsk_1119.is.pdf

600.000-2.000.000 kr.: Ef verktakagreiðslur eru hærri en ca. 600 þ. kr. á ári þarf verktaki að skrá sig á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra og greiða tryggingagjald, lífeyrissjóðsiðgjald og staðgreiðslu mánaðarlega, sjá nánar á eftirfarandi slóð.
https://www.rsk.is/atvinnurekstur/ad-hefja-rekstur/launagreidendaskra/

+2.000.000 kr. : Ef verktakagreiðslur eru hærri en 2 m.kr. á ári þarf verktaki auk þess sem kom fram í kaflanum hér að framan að skrá sig á virðisaukaskattsskrá RSK og skila virðisaukaskattsskýrslum annan hvern mánuð. Þegar verktaki er kominn á vsk-skrá og gefur út sölureikning þá þurfa allir reikningar að hafa vsk-númer (sjá mynd fyrir ofan). Reikningarnir þurfa að vera fyrirfram númeraðir þannig að ekki er heimilt að útbúa reikninga í t.d. excel.
https://www.rsk.is/atvinnurekstur/virdisaukaskattur/vsk-fyrir-byrjendur/

 

Þetta eru gróflegar upplýsingar sem Maur.is vill koma á framfæri en við hvetjum alla til þess að kynna sér vel tekjuskatts- og vsk.reglur sem fram koma á vef ríkisskattstjóra www.rsk.is og hafa samband við þá ef eitthvað er óskýrt eða vakni upp spurningar. Eins og kemur fram í skilmálum Maur.is þá ber Maur.is enga ábyrgð á því að aðilar skili inn fullnægjandi upplýsingum til RSK vegna verktakakaupa/-sölu. Það er algjörlega á ábyrgð notenda. Sjá nánar Skilmála Maur.